Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 465 . mál.


723. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    1. og 2. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Sektir skv. 30. gr. skulu úrskurðaðar af yfirskattanefnd nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar skv. 2. mgr. Skattrannsóknarstjóri sendir yfirskattanefnd mál til úrskurðar. Við meðferð mála hjá yfirskattanefnd skal veita sakborningi færi á að halda uppi vörnum. Úrskurðir yfirskattanefndar eru fullnaðarúrskurðir og fylgir þeim ekki vararefsing.
    Rannsóknarlögregla ríkisins fer með frumrannsókn opinberra mála vegna brota á lögum þessum. Skattrannsóknarstjóri getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sakbornings ef hann vill hlíta því að mál hans verði afgreitt af yfirskattanefnd skv. 1. mgr.

2. gr.


    Í stað orðsins „sektarnefnd“ í 2. málsl. 4. mgr. 31. gr. laganna kemur: yfirskattanefnd.

3. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1992.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um yfirskattanefnd. Samkvæmt því frumvarpi er gerð tillaga um nokkra breytingu á skipun og starfsháttum ríkisskattanefndar. Stefnt er m.a. að því að hraða mjög verulega gangi mála. Af þessum sökum er jafnframt lagt til að verkefni sektarnefndar skv. 31. gr. laga um staðgreiðslu verði flutt til yfirskattanefndar og jafnframt verði sektarnefnd lögð niður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


     Ákvæðið felur í sér að sérstök sektarnefnd vegna staðgreiðslu er lögð niður og verkefni hennar falin yfirskattanefnd. Jafnframt er gerð sú breyting að skattrannsóknarstjóri kemur fram af hálfu hins opinbera gagnvart nefndinni með kröfugerð um sektarbeitingu. Er það í samræmi við þann hátt sem ákveðið er í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um söluskatt og lögum um virðisaukaskatt.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að ákvæðið taki gildi þegar ný yfirskattanefnd hefur störf samkvæmt frumvarpi sem flutt er samhliða þessu um verkefni og skipun yfirskattanefndar.